Flokkunarleiðbeiningar

Flokkunarleiðbeiningar

Flokkunarleiðbeiningar á íslensku, ensku og pólsku Hér má finna helstu upplýsingar um hvernig á að flokka á Svalbarðsströnd.

Instrukcje w języku polskim

Flokkunarhandbók Terra fyrir fyrirtæki og stofnanir Þegar kemur að flokkun í fyrirtækjum og stofnunum er mikilvægt að allir starfsmenn þekki leikreglurnar svo að hámarksárangur náist í flokkun. Hér verður farið yfir flokkunarleiðbeiningar fyrir hvern og einn flokk! Athugið að flokkunarhandbókin gerir ráð fyrir að allir flokkar séu flokkaðir sérstaklega, sérsöfnun á hverju efni. Allar aðrar útfærslur þarf að útfæra með viðskiptastjóra.


Flokkunarmerkingar á flokkunarílát

Flokkunarmerkingar frá Terra á íslensku, ensku og pólsku sem hægt er að nota á flokkunarílát.


Helstu úrgangsflokkar

Hvað flokkast sem tiltekinn úrgangsflokkur, hvert má skila endurvinnsluefninu og hvað verður um það.

Bylgjupappi 

  • Bylgjupappi er auðþekkjanlegur á bylgjunum sem sjást greinilega í brúnum hans. Fjarlægja þarf allar stuðningsumbúðir úr frauðplasti eða pappamassa og alla plastpoka eða plastfilmu. Einnig þarf að fjarlægja allar matarleifar t.d. úr pizzakössum. Æskilegt er að pressa umbúðirnar vel saman, það sparar pláss og dregur úr akstri. Bylgjupappi má fara í endurvinnslutunnuna.
  • Hvað flokkast sem bylgjupappi?
    Til dæmis pappakassi, pizzakassi, millispjöld af vörubrettum og ýmiskonar hlífðarumbúðir

    Hvað verður um efnið?
    Pappinn er losaður á móttökustöð Terra í Réttarhvammi, þar er hann pressaður í stóra bagga og fluttur beint frá Akureyri til Hollands í endurvinnslu.

 

Dagblöð og tímarit

  • Æskilegt er að pressa umbúðirnar vel saman. Það sparar pláss og dregur úr akstri. Fjarlægja ber aðskotahluti, t.d. plast eða matarleifar. Ekki þarf að rífa plastglugga eða límbönd af umslögum. Mikið ámálaður pappír eða blöð, skilaboðamiðar með lími eða innbundnar bækur mega ekki fara í þennan flokk. Einnig er mjög mikilvægt að plast slæðist ekki með. Dagblöð/tímarit mega fara í endurvinnslutunnuna.'

  • Hvað flokkast sem dagblöð/tímarit?
    Dagblöð
    Tímarit
    Bæklingar
    Umslög
    Prentara- og skrifstofupappír
    Gjafapappír sem ekki er með glimmeri eða málm-áferð/húð

  • Hvað verður um efnið?
    Gert er ráð fyrir að þessi flokkur endurvinnsluefna notist sem stoðefni í jarðgerð hjá Moltu. Það sem umfram er, er flutt til Hollands og selt þar á markaði.

 

Drykkjarfernur og sléttur pappi

  • Nauðsynlegt er að fjarlægja allar matarleifar úr umbúðum og skola fernur vel. Æskilegt er að brjóta umbúðir saman svo þær taki minna pláss í flutningi og þannig er auðveldara að geyma þær milli losana. Allt plast innan úr kössum eða er hluti af þeim þarf að fjarlægja og flokka með plasti. Plasttappar mega fara með fernum. Drykkjarfernur mega fara í endurvinnslutunnuna.
  • Hvað flokkast sem drykkjarfernur og sléttur pappír?
    Umbúðir undan t.d.:
    Mjólkurvörum
    Ávaxtasafa
    Morgunkorni
    Kexi
  • Hvað verður um efnið?
    Losað í móttökustöð og baggað til útflutnings. Flutt beint frá Akureyri til Hollands.

 

Fatnaður og vefnaðarvara

  • Öllum fatnaði og skóm af öllum stærðum og gerðum ber að skila til endurnýtingar. Einnig vefnaðarvöru t.d. gluggatjöldum, áklæðum, teppum, sængurfötum og handklæðum. Fatnaður má vera rifinn en allt skal vera hreint og þurrt og pakkað í lokaðan poka. Gott er að hafa skópörin í poka eða reimarnar bundnar saman. Gámur fyrir fatnað og vefnaðarvöru er til staðar á gámasvæðinu á Svalbarðseyri.
  • Ef um er að ræða vel með farin föt er nauðsynlegt að farga þeim ekki heldur koma þeim til annarra sem gætu nýtt þau. Einnig er hægt að koma fötum í Rauða krossinn eða Hertex þar sem fötin eru seld aftur og öðlast nýtt líf. Rauði krossinn tekur á móti öllum textílvörum, líka stökum sokkum og götóttum nærbuxum. Rauði krossinn afhendir einnig efni sem ekki er hægt að nýta til Plastiðjunnar Bjarg til tuskugerðar.

 

Flöskur og dósir

  • Flöskur og dósir eru skilagjaldsskyldar umbúðir og er greitt fyrir að skila þessum umbúðum. Hjá Endurvinnslunni er hver flokkur talinn vandlega og greitt fyrir þann stykkjafjölda sem skilað er hverju sinni. Umbúðir þurfa að vera óbeyglaðar svo að flokkunarvélin þekki þær.
  • Umbúðum í þessum flokki á að skila til Endurvinnslunnar Akureyri / Plastiðjan Bjarg Iðjulundur að Furuvöllum 11, Akureyri. Athugið að ekki er tekið á móti öðrum umbúðum að Furuvölum 11 nema þeim sem bera skilagjald.
    Skilagjaldið er 16 krónur og einungis er greitt inn á debet- og kreditkort.
  • Hvað flokkast sem flöskur og dósir?
    Áldósir, gler- og plastflöskur fyrir:
    Gosdrykki, orkudrykki og tilbúna ávaxtasafa.
    Glerflöskur fyrir áldósir og bjór.
    Glerflöskur fyrir áfengi, bæði létt og sterkt.
    Reglan er sú að ef innihald er drukkið beint, þá bera umbúðirnar skilagjald. Ekki ef innihald þarf að blanda t.d. þykkni.

 

Garðaúrgangur

  • Allan garðaúrgang skal fara með á Tippinn niður við fjöru á Svalbarðseyri

 

Gler

  • Athugið að gler getur brotnað við förgun og valdið slysum, því er nauðsynlegt að fara með gler á viðeigandi förgunarstað í staðinn fyrir að setja í almennt rusl. Mikilvægt er að setja lok af glerkrukkum með málmi. Ljósaperur flokkast ekki sem gler heldur spilliefni og á því ekki heima í þessum endurvinnsluflokki.
  • Glerkrukkum skal skila á Gámasvæðið, Svalbarðseyri eða til Endurvinnslunnar á Akureyri/Plastiðjan Bjarg að Furuvöllum 11. Öðru gleri eða múrbrotum skal skila á Gámasvæðið.
  • Hvað flokkast sem gler?
    Umbúðir og brotið og skemmt leirtau
    Krukkur
    Blómapottar
    Glös
    Glerflöskur
    Ilmvatnsglös
    Speglar
  • Hvað verður um efnið?
    Losað til Skútabergs og mulið þar. Hægt er að nota sem fyllingarefni við framkvæmdir.

 

Húsgögn og innréttingar

  • Húsgögn, húsbúnaður og grófur úrgangur fer í gám sem merktur er húsgögnum. Um er að ræða grófan úrgang sem þarf að rúmmálsminnka fyrir flutninga. Ef um timburhúsgögn er að ræða skulu þau sett í timburgáma. Ef húsögnin eru að hluta til úr timbri þarf að rífa timbrið frá og setja í timburgáminn og restina í gáminn merktan húsgögnum. Gifsplötur mega einnig fara í þennan flokk. Athugið að oft er hægt að gefa nytjahlutum nýtt líf með því að selja þá, gefa öðrum eða fara með þá á nytjamarkaði.
  • Hvað flokkast sem húsgögn og innréttingar?
    Borð
    Stólar
    Skápar
    Rúm
    Dýnur
    Stórir plasthlutir sem ekki eru umbúðir t.d. garðstólar og plastleikföng
  • Hvað verður um efnið?
    Málmar og timbur vélflokkað frá eins og unnt er og það sem eftir stendur er þjappað saman til að rúmmálsminnka og síðan urða

 

Jóla- og gjafapappír

  • Venjulegur gjafapappír má fara með dagblöðum. Pappír með glimmeri og málm-áferð/húð þarf að setja í almennt rusl.
  • Hvað verður um efnið?
    Megnið af því sem er flokkað sem dagblöð á að notast sem stoðefni í jarðgerð hjá Moltu. Það sem umfram er, er flutt til Hollands og selt þar á markaði. Það sem fer í almennt rusl verður urðað.

 

Kertaafgangar

  • Kertaafgöngum skal skila á Gámasvæðið á Svalbarðseyri.
  • Hvað flokkast sem kertaafgangar?
    Kertastubbar, ónothæf kerti og vax. Athugið að sprittkertabikarar flokkast með málmi.
  • Hvað verður um efnið?
    Kertaafgangar eru bræddir og notaðir í útikerti sem framleidd eru hjá Plastiðjunni Bjargi-Iðjulundi. Hægt er að nýta allar tegundir af kertum.

 

Lífrænt

  • Í lífrænu tunnuna fara allir matarafgangar og annar lífrænn úrgangur sem til fellur á heimilinu. Allur þessi úrgangur þarf að fara í sérstaka poka sem eru niðurbrjótanlegir t.d. maís- eða kartöflusterkjupoka (biobag). Einnig má nota pappírspoka. Hægt er að kaupa poka hjá Terra og í helstu matvöruverslunum. Mikilvægt er að nota alls ekki plastpoka undir þennan úrgang þar sem þeir jarðgerast ekki. Óæskilegt er að setja fljótandi matarleifar t.d. súpur eða þunna mjólkurafganga í pokana. Passa þarf að málmur t.d. hnífapör slæðist ekki ofan í lífræna dallinn. Slíkt skemmir vélina sem vinnur úrganginn.
  • Lífrænum úrgangi skal skila í brúna hólfið í sorphirðutunnu.
  • Hvað flokkast sem lífrænn úrgangur?
    Ávextir og ávaxtahýði
    Grænmeti og grænmetishýði
    Egg og eggjaskurn
    Kjöt og fiskafgangar + bein
    Mjöl, grjón, pizza og pasta
    Brauðmeti, kex og kökur
    Kaffikorgur og kaffipokar
    Teblöð og tepokar
    Mjólkurvörur og grautar
    Pottaplöntur og blóm
    Kámaðar pappírsþurrkur
    Tannstönglar, íspinnaprik og sushiprjónar
  • Hvað verður um efnið?
    Allur lífrænn úrgangur s.s. sláturúrgangur, fiskúrgangur, lífrænn heimilisúrgangur, timbur- og trjákurl, pappír, gras og tað fer til Moltu og er jarðgert í stöðinni. Lífræni úrgangurinn fer í gegnum hakkavél og blandast í framhaldinu við stoðefni, sem er að langmestu leyti timburkurl úr úrgangstimbri sem fellur til á okkar svæði. Auk timburkurls er pappa blandað saman við. Þessi blanda fer síðan í stórar jarðgerðartromlur og út úr ferlinu kemur molta sem þarf að þroskast í um sex mánuði. Moltuna má síðan nýta á land sem er unnið til túnræktar, kornræktar eða til ræktunar einærra fóðurjurta, enda sé borið á landið áður en jarðvinnsla fer fram þannig að moltan gangi niður í jarðveginn. Einnig má nýta moltuna til dreifingar á gróðurlendi, til uppgræðslu eða skógræktar á lokuðu svæði.
    Nánari upplýsingar um Moltu

 

Ljósaperur

  • Í flokkinn fara allar tegundir ljósapera. Ljósaperur eru skilgreindar sem raftæki og flokkast til spilliefna. Því skal alls ekki flokka ljósaperur með gleri heldur raftækjum. Mikilvægt er að perur brotni ekki þar sem spilliefni geta þá borist út í andrúmsloftið.
  • Ljósaperum skal skila á Gámasvæðið, Réttarhvammi 2.
    Gjaldfrjálst (ekki tekið klipp af korti)
  • Hvað flokkast sem ljósaperur?
    Glóperur
    Halogen
    Led perur
    Flúor- og sparperur
  • Hvað verður um efnið?
    Flutt til efnamóttöku til eyðingar.

 

Lyf

  • Lyf og lyfjaafgangar eiga ekki heima í almennu sorpi heldur er um að ræða spilliefni sem flokka skal frá og skila til eyðingar.
    Apótek taka á móti öllum lyfjaafgöngum endurgjaldslaust.
  • Hvað verður um efnið?
    Aðallega eytt í brennslu.

 

Málmar

  • Málmar eru verðmætt hráefni sem hægt er að endurvinna margoft án þess að verðmæti þeirra minnki. Jafnframt er um að ræða verðmæta auðlind þar sem efni af þessu tagi er af skornum skammti í heiminum og á því alls ekki að fara með óflokkuðum úrgangi. Athugið að raftæki eiga ekki heima í þessum flokki.
  • Málmum skal skila á Gámasvæðið, Svalbarðseyri. Málmar mega einnig fara í endurvinnslutunnuna.
  • Hvað flokkast sem málmar?
    Niðursuðudósir
    Álpappír
    Lok af glerkrukkum
    Herðatré úr vír
    Hefti
    Álumbúðir t.d. undan sprittkertum
  • Hvað verður um efnið?
    Málmum er komið til málmendurvinnslufyrirtækja hér á Akureyri - Furu eða Hringrásar. Þeir aðilar flytja það út til bræðslu og endurnýtingar.

 

Óflokkað til urðunar

  • Dýrast er að skila óflokkuðum úrgangi, bæði fyrir veskið og umhverfið. Í raun er mjög fátt sem ekki er hægt að flokka og því er hægt að komast hjá því að vera með mikið óflokkað efni með því að velja betri kost.
  • Óflokkuðum úrgangi skal skila í stóra hólfið í sorphirðutunnu, á Gámasvæðið, Svalbarðseyri eða í grenndargám í Kotabyggð.
  • Hvað flokkast sem óflokkaður heimilisúrgangur?
    Bleyjur, dömubindi, bómullarhnoðrar og blautklútar
    Bioplast
    PLA plast
    Úrgangur frá gæludýrahaldi
    Sterkar þurrkur svo sem Tork
    Tannkrems- og áleggstúpur, nema þær séu mjög vel hreinsaðar
    Ryksugupokar
    Sígarettustubbar
  • Vistvænni kostur fyrir óflokkaðan heimilisúrgang
    Bleyjur er ekki hægt að endurvinna og jafnframt eru mörg óæskileg efni í þeim. Hægt er að kaupa taubleyjur, þær eru betri fyrir umhverfið og veskið.
    Dömubindi, líkt og bleyjur er ekki hægt að endurvinna og mörg óæskileg efni er að finna í þeim. Hægt er að velja vistvænni vörur fyrir blæðingar eins og álfabikarinn en hann fæst t.d. í öllum Apótekum. Einnig hafa Thinx túrnærbuxurnar vakið mikla lukku. Jafnframt er hægt að kaupa margnota dömubindi.
    Tannkrem – Hægt er að velja tannkrem í umhverfisvænni umbúðum en plasttúpu t.d. glerkrukkum og einnig er hægt að velja tannkrem með vistvænni innihaldsefnum.
  • Hvað verður um efnið?
    Umhlaðið í hagkvæmar flutningseiningar og urðað.

 

Plastumbúðir

  • Einungis er hægt að endurvinna plast utan af umbúðum, bæði hart og lint. Til að vita hvort að umbúðir séu úr plasti eða áli t.d. kaffi- og snakkpokar þá er þumalputtareglan sú að ef umbúðirnar eru krumpaðar og þær spretta aftur út er um plastumbúðir að ræða en ef þær haldast samankrumpaðar er um ál að ræða. Nauðsynlegt er að þrífa allar matarleifar úr plastumbúðum svo ekki komi ólykt og fjarlægja allan pappa sem kann að fylgja samsettum umbúðum. Plast sem er ekki umbúðaplast t.d. plasthúsgögn, rör eða leikföng eru ekki umbúðir og þarf að skila á gámavöll í viðeigandi gám til urðunar.
  • Plastumbúðum skal skila á Gámasvæðið, Svalbarðseyri eða í grenndragám í Kotabyggð. Plastumbúðir mega fara í endurvinnslutunnuna
  • Hvað flokkast sem plastumbúðir?
    Plastdósir og brúsar
    Plastfilmur
    Bóluplast
    Frauðplast - ef utan af vöru.
    Plastpokar
    Sjampóbrúsar
    Áleggsbréf
    Kaffiumbúðir
    Snakkpokar
    Sælgætisbréf
    Blöðrur
  • Hvað verður um efnið?
    Umbúðaplast er losað í móttökustöð, baggað og sent til Svíþjóðar til frekari flokkunar. Það sem ekki er hægt að endurvinna vegna samsetningar efnis er brennt til orkunýtinga.

 

Plast - annað en umbúðaplast

  • Annað plast en umbúðaplast ber ekki úrvinnslugjald og er jafnframt mjög erfitt í endurvinnslu. Athugið að leikföng sem ganga fyrir rafmagni eða rafhlöðum fara í raftækjagám á endurvinnslustöðvum.
  • Plast sem ekki er umbúðaplast er í raun óendurvinnanlegt og því er best að skila slíku plasti í stóra hólfið í sorphirðutunnu, á Gámsvæðið, Svalbarðseyri eða grenndargám í Kotabyggð.
  • Hvað flokkast sem plast- annað en umbúðaplast?
    Garðhúsgögn
    Leikföng
    Pennar
    Plasthúsgögn
    Uppþvottaburstar
    Tannburstar
    Geisladiskar
    Skúringafötur
    Vindsæng úr plasti
    Balar
    Þvottagrindur
    Einangrunarplast
    Einnota hanskar
  • Hvað verður um efnið?
    Efnið er rúmmálsminnkað og síðan urðað.

 

Rafhlöður og rafgeymar

  • Rafhlöður og rafgeymar flokkast sem spilliefni þar sem þeir innihalda m.a. sýru og blý sem eru mjög skaðleg umhverfinu. Athugið að fjarlægja rafhlöður úr leikföngum og úr endurhlaðanlegum raftækjum.
  • Rafhlöðum og smáraftækjum skal skila á Gámasvæðið, Svalbarðseyri. Einnig mega rafhlöður og smáraftæki fara í endurvinnslutunnuna, en þá er nauðsynlegt að setja rafhlöður í sérstaka poka sem hægt er að nálgast hjá Terra (áður Gámaþjónust Norðurlands) við Réttarhvamm 2.
  • Hvað flokkast sem rafhlöður og rafgeymar?
    Batterí
    Rafhlöður
    Auðkennislyklar
    SIM kort o.s.frv.
  • Hvað verður um efnið?
    Rafhlöður og rafgeymar teljast til spilliefna og því miðar meðhöndlunin fyrst og fremst að því að tryggja öruggan flutning til Efnamóttökunnar í Reykjavík sem kemur þeim til eyðingar eða annarrar meðhöndlunar samkvæm reglum þar um.

 

 Raftæki og rafbúnaður

  • Nauðsynlegt er að reyna að nýta raftæki eins vel og mögulega hægt er og að lokum sjá til þess að efnið endi í réttu endurvinnsluferli. Sérstakir gámar eru á Gámasvæðinu til losunar á öllum raf- og rafeindatækjaúrgangi öðrum en kælitækjum og þvottavélum. Þetta eru lokaðir gámar með körum fyrir einstaka úrgangsflokka. Sérstakir opnir gámar eru eins og áður fyrir kælitæki og þvottavéla. Öll önnur raf- og rafeindatæki eiga að fara í sérstakan gám fyrir raf- og rafeindatækja úrgang. Í gámnum eru kör fyrir mismunandi flokka og eru leiðbeiningar og merkingar í gámnum. Starfsmenn gámasvæðisins veita upplýsingar og aðstoð ef þarf. Athugið að fjarlægja þarf rafhlöður úr tækjum þegar það er mögulegt og flokka sér.
  • Raftækjum og rafbúnaði skal skila á Gámasvæðið, Svalbarðseyri
    Rétt er að taka fram að á Akureyri eru nokkrir aðilar sem taka á móti notuðum raf- og rafeindatækjum t.d. Fjölsmiðjan.
  • Hvaða flokkast sem raftæki og rafbúnaður?
    Sjónvörp
    Hljómtæki
    Tölvur og tölvuskjáir
    Ýmis rafmagns heimilstæki
    Ýmis verkfæri
    Flúrperur, sparperur og venjulegar ljósaperur
    Rafmagnsleikföng
  • Hvað verður um efnið?
    Sumt er flutt til nánari meðhöndlunar í Hafnarfirði eða til endurvinnslu á Akureyri hjá Furu eða Fjölsmiðjunni.

 

Spilliefni

  • Spilliefnum ber samkvæmt lögum að skila til eyðingar og því nauðsynlegt að flokka og skila til endurvinnslu. Spilliefni eru skaðleg umhverfinu og geta borist með vatni og andrúmslofti út í náttúruna. Sum spilliefni safnast upp í fæðukeðjunni og eru því mjög skaðleg. Spilliefnum skal skilað í lokuðum umbúðum. Varnaðarmerktum efnum á ávallt að skila með spilliefnum.
  • Spilliefnum skal skila á Gámasvæðið, Svalbarðseyri.
  • Hvað flokkast sem spilliefni?
    Ýmiss konar hreinsiefni
    Málning
    Lakk
    Lím
    Bón
    Leysiefni t.d. terpentína
    Lyf
    Ljósaperur
    Rafhlöður
    Kvikasilfur í hitamælum
    Stíflueyðir
    Skordýraeitur
    Úðabrúsar
    Ýmsar vöru fyrir ökutæki t.d. frostlögur, olíur, rafgeymar, tjöruleysir, bón og ýmis þrifefni
  • Hvað verður um efnið?
    Meðhöndlunin miðar fyrst og fremst að því að flokka og tryggja öruggan flutning til Efnamóttökunnar í Reykjavík sem kemur þeim til eyðingar eða annarrar meðhöndlunar samkvæmt reglum þar um.

 

Timbur

  • Allan timburúrgang er æskilegt að flokka í tvo flokka:
    Ómeðhöndlað timbur: auðvelt í endurvinnslu og má endurnýta á margvíslegan hátt. Dæmi um slíkt timbur er vörubretti og ómálað timbur.
    Meðhöndlað timbur: málað eða húðað sem er erfiðara í endurvinnslu, þar sem málning, fúavarnarefni eða plasthúðun rýrir mjög möguleikana á endurvinnslu timbursins.
    Athugið að farmar mega alls ekki innihalda annað efni t.d. gler, plast, tjörupappa, einangrun o.s.frv.
  • Timbri skal skila á Gámasvæðið, Svalbarðseyri.
  • Hvað verður um efnið?
    Hreint timbur er kurlað niður með tætara og notað í jarðgerð lífræns úrgangs. Í timbrinu er hátt hlutfall kolefnis og þess vegna er það mikilvægt til mótvægis við hátt hlutfall köfnunarefnis í slátur-, kjöt- og fiskúrgangi. Aðeins hreint timbur hentar sem stoðefni við jarðgerð þar sem fúavarnarefni og önnur meðhöndlun á timbrinu dregur almennt mjög úr starfsemi örvera og inniheldur efni sem draga úr nýtingarmöguleikum á moltunni, sem myndast við jarðgerðina. Einnig er kurlað timbur m.a. notað sem þekjuefni á urðunarstöðum, bæði sem millilag og við endanlegan frágang. Ennfremur er timburkurl notað í reiðvegi, göngustíga, trjábeð o.fl. Gámur fyrir blandað timbur er einnig á gámasvæðinu. Mest af blönduðu timbri er kurlað og fer síðan í urðun.

Efni yfirfarið 10.02.23