Byggjum áfram gott og frjótt samfélag til framtíðar

Nýtt ár er gengið í garð og vil ég byrja á að óska öllum íbúum Svalbarðsstrandarhrepps gleðilegs árs með þökk fyrir árið sem er liðið.

Árið 2023 var sveitarfélaginu farsælt. Svalbarðsstrandarhreppur býr yfir frjóu og fjölbreyttu atvinnulífi, hér má finna framleiðslufyrirtæki, hótelrekstur auk smærri ferðaþjónustufyrirtækja, jógasetur, hárgreiðslustofu, verktakafyrirtæki auk þess sem landbúnaður er ein stærsta atvinnugrein sveitarfélagsins. Sveitarfélagið býr yfir öflugu og góðu starfsfólki. Starfsfólk skólanna okkar leggur sig fram um að leiðbeina og kenna börnunum okkar, það óeigingjarna starf sem þau sinna er samfélaginu okkar mjög mikilvægt og þakkarvert að búa yfir slíkum mannauði.

Að búa og starfa í frjóu samfélagi er lykill að velgengni.

Íbúar sveitarfélagsins voru 507 við áramót. Samþykkt húsnæðisáætlun hreppsins gerir ráð fyrir fjölgun næstu árin og að íbúar verði orðnir 600 eftir 2-4 ár, miðað við háspá. Sveitarstjórn hefur samþykkt fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 og þriggja ára áætlun fyrir árin 2024 til 2027.

Rekstur er góður, afkoma samstæðu sveitarfélagsins jákvæð á árinu 2023. Áætlun næsta árs gerir ráð fyrir tekjuafgangi upp á 24,7 m.kr. af rekstri A-hluta og af samstæðu sveitarfélagsins (A+B) er áætlaður tekjuafgangur upp á 25,5 m.kr. Efnahagur er áfram sterkur.

Á árinu 2023 var lokið við að malbika götur í Valsárhverfi, sett var snjall lýsing í ljóskúpla á ljósastaurum í Borgartúni og Tjarnartúni, lokið var við göngustíg á milli Laugartúns og Smáratúns, malbikað við nýtt áhaldahús á Svalbarðseyri.

Göngu- og hjólastígur í Vaðlareit var malbikaður og lagðir rafmagnskaplar fyrir lýsingu sem verður sett upp sumarið 2024. Hönnun á áframhaldandi gatnagerð í Valsárhverfi var lokið og gatnagerð boðin út. Vinna við gatnagerð mun hefjast nú á næstu vikum í Valsárhverfi.

Lokið var við framkvæmdir á leikskólalóð sem tókst afar vel. Ný loftræsting í Valárskóla er að virka vel og líður nemendum og starfsfólki vel í skólanum. Frískað var uppá matsal grunnskólans með nýjum húsgögnum, málað og endurskipulagt.

Fjárfestingar á árunum 2023-2027 eru áætlaðar 690 m.kr.

Gert er ráð fyrir óbreyttum rekstri og þjónustu sveitarfélagsins á árinu 2024. Gjaldskrárhækkanir eru mismunandi en miða við verðlagshækkanir. Frístundastyrkur til barna- og ungmenna var hækkaður og verður 60.000,- ár ári og frístundastyrkur til eldri borgara verður 20.000,.

Áætlað er að framkvæmdum við gatnagerð í Valsárhverfi muni ljúka á árinu 2024 þá verða um það bil 40 lóðir auglýstar. Unnið er að endurskoðun á aðalskipulagi sveitarfélagsins og rammahluta innan þess. Hafin er vinna við hönnun á mögulegri stækkun grunn og leikskóla.

Höfum bjartsýni að leiðarljósi og gerum gott samfélag betra.

Þórunn Sif Harðardóttir

sveitarstjóri