Byggjum samfélag til framtíðar

Mynd: Tómas Ingi Jónsson
Mynd: Tómas Ingi Jónsson

Árið 2024 var Svalbarðsstrandarhreppi og 510 íbúum hans farsælt.

Rekstur er góður, afkoma samstæðu sveitarfélagsins jákvæð á árinu 2024. Áætlun næsta árs gerir ráð fyrir tekjuafgangi upp á 43,1 m.kr. af rekstri A-hluta og af samstæðu sveitarfélagsins (A+B) er áætlaður tekjuafgangur upp á 78,5 m.kr. Efnahagur er áfram sterkur. Gert er ráð fyrir óbreyttum rekstri og þjónustu sveitarfélagsins á árinu 2025.

Á árinu 2024 var göngu- og hjólastígurinn í Vaðlareit lýstur með fallegum lágum ljósastaurum sem falla vel að náttúrulegu umhverfi stígsins. Einnig var lokið við áningarstaði og settir upp bekkir fyrir gangandi og hjólandi til að njóta. Bæði bekkirnir og ljósastaurarnir voru unnir í Kjarnaskógi úr efniviði sem til féll við lagningu stígsins um Vaðlareit.

Sveitarfélagið keypti húsnæði á Svalbarðseyri af ÞJ verktökum á árinu sem afhent verður í lok árs 2025.

Á árinu var tekið í notkun nýtt áhaldahús sveitarfélagsins og aðlagað að starfsemi hreppsins, þá afhenti sveitarfélagið Ungmennafélaginu Æskunni hluta af gamla áhaldahúsinu til afnota. Það er ánægjulegt að sjá hversu mikinn metnað félagar í Æskunni hafa sett í nýtt Æskuheimili sem er orðin samkomustaður fyrir alla íbúa sveitarfélagsins. Í desember var Svalbarðseyrarvegur lýstur upp með jólastjörnum á ljósastaura.

Vinna hófst við gatnagerð í öðrum og þriðja áfanga Valsárhverfis og mun sveitarfélagið auglýsa 40 lóðir til sölu í janúar 2025. Með fjölgun íbúa er hafin vinna við hönnun á skólahúsnæði grunn- og leikskóla.

Svalbarðsstrandarhreppur og Eyjafjarðarsveit unnu sameiginlegt rammaskipulag fyrir Vaðlaheiði á árinu. Markmið skipulagsins er að móta heildstæðastefnu um þróun byggðar í Vaðlaheiði. Unnið er að nýju aðalskipulagi fyrir Svalbarðsstrandarhrepp sem verður kynnt á fyrsta ársfjórðungi 2025.

Vinna við hönnun á áframhaldandi göngu- og hjólastíg frá Vaðlaheiðargöngum og út Grenivíkurveg hélt áfram enda verkefni sem er mikil samgöngu- og öryggisbót.

Nýtt flokkunarkerfi á sorpi verður innleitt á árinu 2025, til stóð að hefja nýtt ferli 1. janúar en það mun frestast eitthvað.

Fjárfestingar á árunum 2025-2028 eru áætlaðar 506 m.kr.

Sveitarfélagið býr yfir góðum og traustum mannauði í skólunum, á skrifstofu, áhaldahúsi, sveitarstjórn og nefndarfólki.

Ég þakka íbúum Svalbarðsstrandarhrepps og öllu því góða samstarfsfólki sem starfar hjá sveitarfélaginu fyrir gott samstarf á árinu og óska ykkur gæfu og hamingju á nýju ári.

Þórunn Sif Harðardóttir

sveitarstjóri