Frestun á gjalddögum fasteignagjalda
Viðbragðsáætlun Svalbarðsstrandarhrepps
Viðbragðsáætlun Álfaborgar/Valsárskóla
Aðgerðaráætlun Svalbarðsstrandarhrepps
Forgangslisti 1 fyrir leik- og grunnskóla 16.mars 2020
6. apríl 2020
Yfirlýsing frá Almannavarnanefnd í umdæmi Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra:
Almannavarnanefnd í umdæmi Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra mælist eindregið til þess að fólk ferðist ekki um páskana og virði í hvívetna samkomubann og fjarlægðarmörk hér eftir sem hingað til. Ljóst er að heilbrigðiskerfi landsmanna má ekki við meira álagi og koma þarf í veg fyrir aukna hættu á smitum og slysum með öllum tiltækum ráðum á þessum krefjandi tímum.
Almannavarnanefnd biðlar til almennings að sýna samfélagslega ábyrgð. Þeir sem hyggja á holla og góða útivist verða að sýna aðgætni, virða öll tilmæli um fjarlægðarmörk og hafa í heiðri samkomubannið sem gildir til 4. maí.
Eigendur orlofshúsa, og/eða félög sem hafa með orlofsbyggðir að gera, eru hvattir til að leigja ekki út orlofshús um páskana.
Enn fremur er fólk hvatt til að takmarka gestakomur eins og hægt er.
Virðum tilmæli Sóttvarnalæknis og Landlæknis um að ferðast innanhúss um páskana. Heilbrigðisstarfsfólk þarf á öllum kröftum sínum að halda við að hlúa að fólki sem smitast hefur af Covid-19. Óþarfa ferðalög bjóða heim hættu á slysum og frekari smitum sem við megum ekki við nú um stundir.
Munum að við erum öll almannavarnir. Ábyrgðin hvílir hjá okkur.
Almannavarnarnefnd í umdæmi Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra
26. mars 2020
„Tímahylkið í tíð Kórónunnar“
Á heimasíðu hreppsins er að finna nýja síðu undir flipanum COVID-19. Við eigum öll eftir að gleðjast þegar hægt verður að taka þennan flipa af heimasíðunni og geyma á minna áberandi stað en því miður erum við ekki komin þangað. Á þessari síðu er að finna ýmsar gagnlegar upplýsingar og við höldum áfram að safna upplýsingum og skilaboðum til íbúa inn á þessa síðu. En um leið og við erum að bregðast við þeim aðstæðum sem eru uppi um þessar mundir er verið að skipuleggja verkefni sem ákveðin voru á fjárhagsáætlun, skoða ný verkefni sem hægt er að fara í og hvernig þau verði fjármögnuð. Mikið er um fundarhöld, bæði innan starfsmannahóps hreppsins, hjá viðbragðshópi sveitarfélagsins og við samstarfsaðila fyrir utan sveitarfélagið.
En svo heldur lífið áfram og mikið af þeim verkefnum sem verið er að vinna hér á skrifstofu hreppsins snúa að því að vera tilbúin með verkefni, skipulag og framkvæmdaaðila þegar við fáum færi á að hefja þau af fullum krafti.
Sú hugmynd hefur fæðst í skólanum að skapa afmarkaðan vettvang á heimasíðu hreppsins fyrir sögur og myndir sem tengjast faraldrinum, eins og hann horfir við á Svalbarðsströnd. Þar geta starfsmenn, foreldrar og aðrir íbúar sagt frá því hvernig starfið gengur í skólunum eða á öðrum vinnustöðum, á heimilunum eða í fjósinu og einnig komið með ábendingar varðandi háttalag, vinnulag og annað sem þurfa þykir: „Tímahylkið í tíð Kórónunnar“. Starfsmenn hreppsins halda utanum þessar greinar og hugmyndin er að skoða þessi skrif að ári og senda svo til Þjóðskjalasafns til varðveislu og geymslu um ókomna tíð. Vonandi getum við skemmt okkur yfir þessu uppátæki og þeir sem hafa áhuga á að deila með sér geta sent henni Önnu Heiði, anna.heidur@svalbardsstrond.is línu.
Með kveðju
Björg Erlingsdóttir
sveitarstjóri
25. mars 2020
Kveðja frá sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps
Sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps hittist í dag, miðvikudaginn 25. mars 2020 á fjarfundi þar sem samþykkt var að leyfilegt sé að halda fundi sveitarstjórnar í fjarfundarbúnaði á meðan takmarkanir eru á samkomum.
Þessir tímar eru um margt sérstakir, ekki nóg með að veturinn hafi verið okkur þungur, veður oft erfið og snjósöfnun mikil heldur hefur heimsfaraldur sett daglegt líf okkar úr skorðum. Við óttumst eðlilega afdrif okkar og okkar nánustu og óvissan setur um margt mark sitt á samfélagið. En um leið og við upplifum erfiða tíma upplifum við einnig samtakamátt og getu fámennrar þjóðar til þess að vinna saman og áorka hlutum sem stærri þjóðum getur reynst erfitt. Sama á við um samfélagið okkar hér á Svalbarðsströnd. Við þurfum hvert og eitt að tileinka okkur breytt umhverfi og vera tilbúin til þess að vinna í sameiningu að því að stýra hraða útbreiðslu veirunnar. En svo minnir sólin á sig og okkur á að innan skamms létti snjóinn og vorið kemur.
Skólastarf hefur tekið miklum breytingum síðustu daga og í skólastarfinu er farið eftir tilmælum Sóttvarnarlæknis og Almannavarna. Áhersla er lögð á að halda skólastarfi gangandi, tryggja fjarlægðir milli einstaklinga og hópa og að við séum meðvituð um smitleiðir. Allt starf sem kallar á samveru stærri hópa eða einstaklinga úr mismunandi hópum hefur verið frestað og tónlistarnám flutt í fjarnám. Mikilvægt er að öll sú vinna sem unnin er innan veggja skólanna haldi áfram þegar heim er komið. Þannig þurfa foreldrar að fylgjast vel með börnum sínum eftir skóla og blöndun milli hópa og foreldrar barna sem eru heimavið vegna sóttkvíar verða að tryggja að börn þeirra blandist ekki börnum sem eru í skóla. Það stoðar lítt að vera í sóttkví fyrir hádegi og fara svo út eftir hádegi að leika við krakkana úr skólanum. Sóttvarnarlæknir hefur gefið leiðbeiningar um leik barna utan skóla og þar er leiðarstefið að börn sem eru saman í skóla, bekkjarfélagar geti leikið sér efir skóla en í fámennum hópum og þá helst tveir saman.
Sveitarstjórn vill þakka starfsmönnum framúrskarandi starf á krefjandi tímum, sérstaklega í ljósi þeirrar stöðu að nýjir skólastjórnendur hafa ekki tekið til starfa. Við eigum mikil verðmæti í starfsmönnunum okkar sem bregðast við þeim miklu áskorunum sem upp koma með rólegheitum og yfirvegun, samtali og lausnum. Starfsmenn eiga samskipti í gegnum fjarfundarbúnað og skipuleggja starf sitt útfrá aðstæðum, aðgengi að leik- og grunnskóla er heft og á skrifstofu hreppsins situr sveitarstjórinn einn að vinna og sinnir fundarhöldum og skipulagi í gegnum tölvu. Deildarstjóri leikskóla og verkefnastjóri grunnskóla, Dilla og Svala eiga sérstakar þakkir skildar. Þær halda af festu utanum starf sinna stofnana. Þær auk sveitarstjóra, skrifstofustjóra og umsjónarmanni fasteigna sitja í viðbragðsteymi sem hittist minnst þrisvar í viku eftir fundi almannavarna og skipuleggur hópurinn næstu skref. Tölvupóstar, fjarfundir og sími eru verkfærin sem nýtast við að halda utanum samfélagið okkar þessa dagana.
Sveitarstjórn hittist næst þriðjudaginn 31. mars. Á þeim fundi kemur sveitarstjórn til með að ræða minnisblað frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem er að finna samantekt á hugmyndum og aðgerðum til viðspyrnu fyrir íslenskt atvinnulíf í ljósi þess samdráttar sem blasir við í þjóðarbúskapnum. Stjórn Svalbarðsstrandarhrepps mun skoða leiðir til þess að bregðast við ástandinu og horfa til hugmynda sambandsins.
Með kærri kveðju,
Sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps
18. mars 2020
Hér fylgir aðgerðaráætlun Svalbarðsstrandarhrepps nú þegar búið er að setja samkomubann og takmarka fjölda nemenda í stofum. Eins og gefur að skilja eiga þessar aðgerðir eftir að breyta daglegri rútínu margra og við gerum okkar besta til þess að skipuleggja starfið þannig að röskunin verði sem minnst. Í aðgerðaráætlun má sjá hvernig framkvæmdin verður og ýtarlegri lýsing en fylgir hér:
Valsárskóli verður þannig skipulagður að kennsla verður alla daga frá klukkan 08:00-12:00 eiginleg stundartafla gildir ekki og starfsemi Vinaborgar fellur niður. Almannavarnir biðla til stjórnenda leik- og grunnskóla að þeir aðilar sem sinna samfélagslega mikilvægri þjónustu í heilbrigðis og viðbragðsgeira fái forgang fyrir börn sín á frístundaheimilum. Listi frá almannavörnum yfir þá aðila sem sótt geta um forgang má finna hér á síðunni.
Foreldrar sækja um forgang í gegnum www.island.is og hægt verður að sækja um miðvikudaginn 18. mars.
Leikskólinn Álfaborg er opinn frá kl. 07:45-15:00. Hér er farið að eins og í skólanum, börnum skipt upp í smærri hópa og passað að hóparnir séu á afmörkuðum svæðum. Starfsmenn þurfa tíma til þess að ganga frá eftir vinnudaginn, hreinsa leikföng og undirbúa nýjan starfsdag og þetta er ástæðan fyrir því að við lokum leikskólanum kl. 15:00.
Þetta eru óvenjulegir tímar og við reynum okkar besta til þess að mæta þörfum foreldra en starfsemi Vinaborgar er þess eðlis að við náum ekki að taka á móti þeim hóp sem þar hefur verið í vistun. Á forgangslista eru starfsfólk í grunnskóla og leikskóla og því mun sveitarfélagið sinna frístund þeirra barna eftir skóla og þeirra foreldra sem fá samþykktan forgang. Við hvetjum foreldra sem starfa í skilgreindum störfum til þess að sækja um forgang á www.islandia.is.
Sveitarstjórn hittist í gær, þriðjudag og fór m.a. yfir aðgerðaráætlun sveitarfélagsins. Fundum nefnda er frestað tímabundið eins og hægt er og við gerum okkar besta til þess að fækka fundum, ferðum og öðrum erindum. Þetta þýðir líka að við takmörkum heimsóknir annarra og biðjum við foreldra um að virða þessi mörk, fylgja börnum sínum að skóla og ekki inn, fylgja börnum í leikskóla inn í anddyri og ekki lengra.
Á heimasíðu Landlæknis, Almannavarna, hér á síðu sveitarfélagsins og aðilum eins og Þroskahjálp er að finna gagnlegar upplýsingar. Hér fylgir tengill á efni frá Þroskahjálp sem úrskýrir á auðlesnu máli um kóróna-veiruna.
Við héðan af skrifstofu Svalbarðsstrandarhrepps sendum góðar kveðjur til íbúa og bendum á að við höfum sett upp símatíma daglega milli klukkan 10 og 12, hægt er að hringja utan þess tíma en við lofum að sitja við símann á þessum tíma. Hægt er að senda okkur tölvupóst á postur@svalbardsstrond.is
Þetta eru undarlegir tímar sem við lifum og um leið og við reynum okkar besta við að fylgja eftir þeim tilmælum sem okkur berast, reynum við að fylgja þeim eins ýtarlega og við getum. Samtakamáttur skilar okkur í gegnum þennan tíma og mikilvægt er að við virðum sóttkví og leggjum okkur fram um að hægja á útbreiðslu kórónaveirunnar.
Með kveðju,
Björg Erlingsdóttir
Sveitarstjóri
13.mars 2020
Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum í dag hefur heilbrigðisráðherra ákveðið að virkja heimildir sóttvarnarlaga sem fela m.a. í sér samkomubann næstu fjórar vikur. Samkomubann á við viðburði þar sem fleiri en 100 manns safnast saman. Samtímis var tilkynnt um tímabundnar takmarkanir á starfsemi skóla. Útfærslan á þeim takmörkunum felast m.a. í því að börn verði í sem minntum hópum og aðskilin eins og kostur er. Sömu forsendur eiga við um stærri vinnustaði. Nánari útfærslur í Álfaborg og Valsárskóla verða unnar samkvæmt tilmælum stjórnvalda.
Svalbarðsstrandarhreppur vinnur eftir viðbragðsáætlun sem finna má á heimasíðu hreppsins og starfrækt er viðbragðsteymi sem vinnur eftir þeim tilmælum sem koma frá embætti Landlæknis og Almannavörnum. Í þeim tilmælum sem komu frá stjórnvöldum í dag er gert ráð fyrir að sveitarfélög skipuleggi skólastarf miðað við aðstæður á hverjum stað. Engin ákvörðun hefur verið tekin um að breyta skipulagi skólastarfs á Svalbarðseyri, á mánudag hittist viðbragðshópurinn eftir fund Almannavarna og í framhaldi af því verða settar upplýsingar á heimasíðu hreppsins og póstur sendur til foreldra.
Á mánudag, 16. mars er starfsdagur í leik- og grunnskóla, Álfaborg og Valsárskóla. Undanfarið hefur verið unnið að áætlun í Valsárskóla um kennslu barna komi til þess að skóla verði lokað tímabundið og á mánudag heldur sú vinna áfram. Starfsmenn leik- og grunnskóla koma til með að vinna að skipulagningu skólastarfsins á mánudag og upplýsingar verða settar á heimasíðu sveitarfélagsins. Foreldrar leik- og grunnskólabarna fá upplýsingar sendar frá skóla með nánari útskýringum að loknum starfsdegi.
Samkomum eldri borgara hefur verið frestað tímabundið og eftir helgina verður ákveðið hvort íþróttastarfi verði frestað. Eftir helgina verða jafnframt settar á heimasíðu hreppsins, leiðbeiningar varðandi tómstundir barna, fundahald og aðra starfsemi sem getur orðið fyrir áhrifum af breytingum á skólastarfi og samkomubanni.
Foreldrar leik- og grunnskólabarna eru beðnir um að fylgjast vel með upplýsingum sem birtast munu eftir helgina á heimasíðu sveitarfélagsins og síðum grunn- og leikskóla. Þetta verkefni sem við stöndum frammi fyrir er stórt en með samtakamætti og yfirvegun tekst okkur að vernda þá sem veikastir eru fyrir smiti og lágmarka útbreiðslu veirunnar. Bent er á heimasíðu Landlæknis www.landlaeknir.is , www.covid.is og heimasíðu Almannavarna www.almannavarnir.is .
Með kveðju
Björg Erlingsdóttir
sveitarstjóri
9.mars 2020
Lýst hefur verið yfir neyðarstigi almannavarna vegna kórónaveiru, COVID-19. Neyðarstigi er lýst yfir á grunni þess að sýking er nú farin að breiðast út innanlands. Virkjun neyðarstigs hefur ekki teljandi áhrif á almenning umfram hættustig og ekki hefur verð lagt á samkomubann. Mikilvægt er að við fylgjumst vel með þeim upplýsingum sem koma frá Almannavörnum og förum eftir þeim leiðbeiningum sem þar er að finna. Hér er að finna viðbragðsáætlun Svalbarðsstrandarhrepps og bendum við íbúum á að kynna sér hana og tengill á síðu [almannavarnir.is] Almannavarna fylgir hér og síðuna „Það sem þú þarft að vita“ finnur þú hér.
Við tökum mark á ráðleggingum sóttvarnarlæknis og upplýsingum frá Almannavörnum, leysum þetta saman verkefni og af yfirvegun og hugum að samferðarfólki okkar.
29. febrúar 2020, uppfært 9.mars 2020
Búið er að staðfesta COVID-19 smit hér á landi og í ljósi þess að skólafríi er að ljúka og margir að snúa heim eftir ferðalög í fríinu viljum við benda á viðbragðsáætlun Valsárskóla og leikskólans Álfaborgar sem finna má á heimasíðu skólanna: Viðbragðsáætlun
Fréttir geta valdið ótta og kvíða hjá börnum og mikilvægt að þessi mál séu rædd af yfirvegun við þau. Ráðlegt er að ræða við börnin um veiruna af yfirvegnun en óæskilegt að þagga niður fréttir og umræðu. Hér fylgir tengill á grein sem birtist á visir.is þar sem góð ráð eru gefin um hvernig gott sé að bera sig að þegar rætt er við börn um kórónaveiruna.
Rétt er að benda á að á heimasíðu Landlæknis er að finna upplýsingar um smit og sóttvarnir, viðbragð og góð ráð. Á heimasíðu Landlæknis er listi yfir þau svæði sem skilgreind eru sem hættusvæði og ráðleggingar til einstaklinga sem hafa verið á þessum svæðum og þeir beðnir um að vera í sóttkví í 14 daga frá dvöl á hættusvæði. Í dag, mánudaginn 09.03.2020 eru þau svæði sem eru skilgreind hættusvæði þessi:
Skíðasvæði í Ölpunum frá og með 29. febrúar 2020
Mikilvægt er að við sýnum stillingu og skynsemi og að við förum eftir þeim ráðleggingum sem finna má á síðu Landlæknis. Ferðamenn sem eru að koma frá löndum á þessa lista eru hvattir til þess að halda sig heima í 14 daga eftir að þeir yfirgefa skilgreint hættusvæði. Mikilvægt er að benda á að þessi tilmæli eiga við einstaklinga sem eru að koma frá þessum löndum og ekki öðrum eins og staðan er í dag.
Undibúningur á Íslandi er samkvæmt viðbragðsáætlun almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra og sóttvarnarlæknis. Ekki er ástæða til að skima farþega á flugvöllum hér á landi og listinn hér að ofan er leiðandi í þeirri vinnu. Með yfirvegun og rósemd tekst okkur í sameiningu að hefta útbreiðslu kórónaveirunnar.
Við munum halda okkar striki og reiknum með óbreyttu skólahaldi nema yfirvöld mælist til um annað. Við þurfum að vera duglega að minna hvort annað á að þvo hendur og nota handspritt sem er að finna í skólanum.
Hægt er að fylgjast með gangi mála á vef Almannavarna og Landlæknis og rétt að benda á að þessir vefir eru bæði leiðbeinandi og upplýsandi um þær aðgerðir sem unnið er að á hverjum tíma. Við þurfum í sameiningu að forðast aðrar upplýsingar en þær sem þar birtast og varast að ala á ótta.
Kórónaveiran – spurt og svarað fyrir fólk sem vinnur með börnum og ungmennum
Svona á að bera sig að þegar rætt er við börn um kórónuveiruna
Leiðbeiningar fyrir almenning varðandi sóttkví í heimahúsi
Svalbarðsstrandarhreppur - Ráðhúsinu, 606 Akureyri
Kennitala: 640269-2279 - Bankareikn.: 0162-26-075801