Hafist var handa við lagningu vegarins við Bakkatún, frá nr. 12-20, nú í vikunni og gert er ráð fyrir að framkvæmdum verði lokið fyrir lok ágúst. Það eru starfsmenn verktakafyrirtækisins Finnur ehf. sem sjá um framkvæmdir.
Í vikunni voru knáir menn við vinnu á leikskólalóðinni og settu mottur á flötina hjá ungbarnadeildinni. Eins og sjá má á þessum myndum eru ný leiktæki komin á ungbarnadeildina, vestan megin við húsið og mjúkt undirlag/mottur sett undir. Í leikskólanum er jafnframt verið að mála forstofur og sett verða upp ný fatahengi á næstu dögum.
Í Valsárskóla er unnið að endurnýjun á aðstöðu kennara á efri hæð skólans, lagfæringu á þaki, forstofa nemenda máluð og ný fatahengi sett upp. Krakkarnir í Vinnuskólanum vinna hörðum höndum að snyrtingu umhverfisins og síðustu daga hafa þau verið að slá lóðir og ráðast til atlögu við njóla. Næstu daga leggja þau leið sína að gömlu réttinni við Geldingsá og aðstoða við lagfæringu hennar.
Með haustinu er gert ráð fyrir að Vegagerðin hefjist handa við að laga varnargarðinn á Svalbarðseyri og viðbúið að hann verði hækkaður og þéttur.
Settir hafa verið upp útibekkir við höfnina, reitur gerður við klettinn á leiðinni út Borgartún og annar áningastaður er í vinnslu við Valsá. Anja Müller hefur verið með okkur í liði og teiknað áningastaðina og í lok sumars verða vonandi kominn hellulagður áningastaðir við Laugartún þar sem nú stendur bekkur, sunnan við hús nr. 2, útibekkur í Elsubrekku við rólur, áningastaður við göngustíginn frá Smáratúni að Borgartúni, áðurnefndur áningastaður við Valsá og Borgartún auk þess sem verðið er að vinna að lagfæringum á útisvæðinu við Vitann.
Vitinn á 100 ára afmæli í ár og í ágúst verður hann málaður og gengið frá útisvæðinu í kringum hann. Við Hamarinn verður borðum fjölgað og ruslatunnur settar upp. Gert er ráð fyrir að ekki verði ekið eftir vegum meðfram tjörnum og aðeins gangandi/hjólandi á ferð. Anja hefur verið að vinna að göngukorti þar sem leiðir innan Svalbarðseyrar verða merktar og vegalengdir mældar og vonandi halda heimamenn áfram að nýta sér þessar fallegu leiðir sem í boði eru, stoppa við og njóta náttúrunnar á áningastöðum og fylgjast með fuglalífinu við tjarnirnar.
Svalbarðsstrandarhreppur - Ráðhúsinu, 606 Akureyri
Kennitala: 640269-2279 - Bankareikn.: 0162-26-075801