Undanfarna daga hefur verið unnið að uppsetningu grenndarstöðvar á gámasvæðinu og hliðs sem verður við akstursleiðina norðan megin við gámasvæðið. Hliðið er aðgangsstýrt og munu íbúar fá aðgang í símann sinn, þeir sem ekki eru með síma sem nýtast fá fjarstýringu sem nálgast má á skrifstofu hreppsins. Aðgang í síma verður hægt að sækja um á heimasíðu hreppsins. Með þessu viljum við bæta umgengni um gámasvæðið og tryggja að gámasvæðið nýtist heimamönnum enda treystum við þeim best til þess að flokka og ganga vel um. Gámasvæðið er vaktað með myndavélum en með aðgangsstrýringu verður auðveldara að bregðast við ef útaf bregður í flokkuninni.
Ef vel gengur með aðgangsstýringu á gámasvæðinu á Svalbarðseyri er gert ráð fyrir að samskonar fyrirkomulag verði á gámasvæðinu í Vaðlabyggð.
Við þurfum að venja okkur við að hugsa gróflega um sorp sem tvo flokka, annars vegar sorp sem við borgum fyrir að sé sótt, urðað eða endurunnið. Hins vegar sorp sem aðrir geta skapað verðmæti úr og við þurfum þá ekki að borga fyrir að það sorp sé sótt eða endurunnið. Hér eru því miklir hagsmunir fyrir samfélagið okkar og mikilvægt að við nálgumst þetta sem sameiginlegt verkefni okkar allra.
Með tilkomu grenndarstöðvar verða flokkunarflokkar 16. Skilti verður á svæðinu til þess að auðvelda fólki losun, upplýsingar bættar á heimasíðu sveitarfélagsins og í október verður haldið námskeið á vegum TERRA þar sem farið verður yfir þær áskoranir sem okkur mæta þegar kemur að flokkun og frágangi sorps.
Við vonum að með bættri aðstöðu og stýringu á aðgengi að svæðinu náum við betri árangri í flokkun og meðferð sorpsins okkar, svæðið verði snyrtilegra og betur um það gengið. Og svo viljum við auðvitað fara betur með fjármuni sveitarfélagsins og forðast aukakostnað þegar kemur að sorpinu okkar.
Svalbarðsstrandarhreppur - Ráðhúsinu, 606 Akureyri
Kennitala: 640269-2279 - Bankareikn.: 0162-26-075801