Ruslatínsla meðfram þjóðveginum, laugardaginn 18. maí.

Hin árlega ruslatínsla meðfram þjóðveginum verður haldin á morgun, laugardaginn 18. maí. Þessi hefð hefur skapað sér fastan sess í mannlífinu hérna í Svalbarðsstrandarhreppi og hvetjum við íbúa að koma og hefja hvítasunnuhelgina með góðri útivist í góðum félagsskap. Veðurspáin svíkur okkur ekki frekar en fyrri daginn þar sem spáð er að lágmarki 2°C. Ekki er getið neitt til um efri mörkin.  Annars má geta þess að skv. rannsóknum undirritaðs þá er best að tína rusl í akkurat því hitastigi sem verður á morgun.  

Mæting er fyrir framan skrifstofur Svalbarðsstrandarhrepps kl. 10:00. Þaðan verður fólki dreift um þjóðveginn og hann genginn og hreinsaður frá 10:00-12:00. Pylsur verða komnar á grillið upp úr 11:30 og fólk getur safnast saman á skrifstofunni þegar það hefur lokið við tínslu á sínu svæði. Í boði verða pylsur, gos og kaffi. 

Meðal áhugaverðra hluta sem gaman er að fylgjast með á meðan ruslatínslu fer fram er m.a.:

  • Fjöldi nikotínpúða vs. fjöldi sígarettustubba
  • Hversu margir Brynjurúntar hafa endað í vegkantinum á þjóðveginum
  • Orkudrykkjadósir vs kaffimál
  • Fjöldi vegstika sem safnast saman (voru 10 í fyrra). 

 

Með von um að sjá ykkur flest á morgun í sólskinsskapi :D

Skrifstofa Svalbarðsstrandarhrepps.