Starfsfólki vinnuskólans hrósað

Starfsmenn Vinnuskólans hafa unnið af kappi í sumar við að halda umhverfi okkar hreinu. Þau hafa að venju aðstoðað eldri borgara við umhirðu garða, hreinsað kerfil og sinnt umhirðu beða auk fjölda annarra verkefna. Í vikunni sem leið kom íbúi Svalbarðsstrandarhrepps við á skrifstofu hreppsins og vildi þakka starfsmönnum Vinnuskólans sérstaklega fyrir vel unnin störf í sumar. Íbúinn hafði fengið heimsókn frá Vinnuskólanum og sagðist hafa fylgst vel með og hrósaði vinnusemi þeirra, bæði starfsmanna og flokksstjóra. Og hrós var ekki það eina sem fylgdi þessari heimsókn því íbúinn vildi sýna þakklæti sitt í verki og gaf útskriftarhópi Valsárskóla pening sem þau nýta í ferð sem verður farin vorið 2022.

 

Með kveðju
Björg Erlingsdóttir
sveitarstjóri Svalbarðsstrandarhrepps