Þróun íbúðarbyggðar í Vaðlaheiði – Rammahluti aðalskipulags, samstarfsverkefni Eyjafjarðarsveitar og Svalbarðsstrandarhrepps – kynning tillögu á vinnslustigi

Þróun íbúðarbyggðar í Vaðlaheiði – Rammahluti aðalskipulags, samstarfsverkefni Eyjafjarðarsveitar og Svalbarðsstrandarhrepps – kynning tillögu á vinnslustigi

Opinn kynningarfundur vegna skipulagsverkefnisins Heiðarinnar fer fram í matsal Hrafnagilsskóla, Skólatröð 9 Hrafnagilshverfi, kl. 20:00 fimmtudaginn 1. febrúar 2024. Um er að ræða rammahluta aðalskipulags sem Eyjafjarðarsveit og Svalbarðsstrandarhreppur hafa sameinast um að vinna vegna áforma um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Vaðlaheiði. Á fundinum munu fulltrúar beggja sveitarfélaga og aðstandenda verkefnisins kynna skipulagstillöguna og svara fyrirspurnum um málið frá fundargestum.

Tilgangur skipulagsverkefnisins er að móta heildstæða stefnu um þróun byggðar í Vaðlaheiði til framtíðar. Horft er á skipulagssvæðið sem eina heild þrátt fyrir að um tvö sveitarfélög sé að ræða. Markmið skipulagsins er að skipuleggja aðlaðandi og búsetuvæna byggð með dreifbýlisyfirbragði sem falli vel að náttúrulegu umhverfi svæðisins. Stefnt er að því að rammahluti aðalskipulags verði forskrift fyrir gerð deiliskipulagsáætlana og uppbyggingu á svæðinu til framtíðar. Kynningarmyndband vegna verkefnisins má sjá í gegnum meðfylgjandi hlekk.

Kynningarfundurinn er hluti opinnar kynningar aðalskipulagstillögu skv. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og stendur kynningartímabilið til 14. febrúar 2024. Innan þess tíma er hægt að koma athugasemdum eða ábendingum vegna verkefnisins á framfæri við skipulags- og byggingarfulltrúa sveitarfélaganna sem í hlut eiga. Erindi skulu vera skrifleg og berast í tölvupósti á netfangið sbe@sbe.is eða í bréfpósti til Skipulags- og byggingarfulltrúa Eyjafjarðar, Skólatröð 9, Hrafnagilshverfi 605 Akureyri.

 

Skipulags- og byggingarfulltrúi