Laugardaginn 18. september opnar sýningin TÍMAHYLKIÐ í Safnasafninu. Á sýningunni verða verk nemenda í grunn- og leikskóla, verk sem unnin eru út frá upplifun nemenda á daglegt líf á tímum COVID og þau áhrif sem við verðum fyrir í daglegu lífi okkar. Nemendur hafa skoðað söguna og hvernig vírusar hafa haft áhrif á líf manna um leið og þau hönnuðu tímalínu sem útskýrir sögulegt samhengi. Þá hafa nemendur teiknað veiruna út frá þeirra hugmyndum, skrifað um veiruna og gert listaverk. Allt verður þetta til sýnis á sýningunni í Safnasafninu. Nemendur í Vinnuskólanum taka einnig þátt og þeirra verk er stórt og umfangsmikið. Þau ætla að ljósmynda alla íbúa Svalbarðsstrandarhrepps á þessum tímum. Ljósmyndir, listaverk og áhugaverðir munir verða settir í kassa sem kallaður er tímahylki, vandlega verður búið um munina og þeir geymdir um óákveðinn tíma. Nemendur Valsárskóla eiga eftir að ákveða hvenær tímahylkið verður opnað aftur en þangað til verður það varðveitt hjá Minjasafninu á Akureyri.
Næstu daga geta íbúar því átt von á hringingu frá nemendum Vinnuskólans þar sem þeir óska eftir samþykki fyrir því að teknar séu ljósmyndir og tími ákveðinn til myndatöku. Nemendur fengu stutt námskeið um ljósmyndun á farsíma og fara nú af stað með nýfengna þekkingu og ljósmynda íbúa hreppsins. Sagan hefur sýnt okkur að ljósmyndir frá fyrri tíma hafa oft mikla og áhugaverða sögu að segja okkur í samtímanum.
Vonandi takið þið vel á móti þessum sagnfræðingum framtíðar sem eru að velta fyrir sér varveislu mynda, frásagna og upplifunar einstaklinga á tímum COVID.
Með kærri kveðju
Björg Erlingsdóttir
Sveitarstjóri Svalbarðsstrandarhrepps
Svalbarðsstrandarhreppur - Ráðhúsinu, 606 Akureyri
Kennitala: 640269-2279 - Bankareikn.: 0162-26-075801