Undanfarin ár hefur markvisst verið unnið að því að bæta aðstöðu, auðvelda flokkun og efla vitund og þátttöku íbúa þegar kemur að sorphirðu í sveitarfélaginu. Hreinsunardagar eru haldnir, upplýsingar eru um flokkun á heimasíðu hreppsins, hverju heimili eru lagðar til tvær 240 l tunnur fyrir almennt sorp og endurvinnanlegan úrgang auk þess sem lífrænum úrgangi er safnað. Auk þess er tekið á móti 16 flokkum sorps á gámasvæðinu og íbúar hafa aðgang að svæðinu með aðgangslykli í síma. Yfir sumarmánuðina höfum við bætt við tunnu fyrir lífrænt sorp á gámasvæðinu þannig að gestir og eigendur sumarhúsa geti skilað lífrænu sorpi á réttan stað.
Síðustu vikur hefur borið á slæmri umgengni á gámasvæðinu þar sem ekki er farið eftir flokkun, efnum blandað saman og umgengni sóðaleg. Ekkert afsakar þessa umgengni um gámasvæðið og sárt fyrir þá sem leggja metnað sinn í að flokka og skila skilmerkilega á rétta staði að fáir skussar eyðileggi þá vinnu sem aðrir leggja á sig.
Það er mikilvægt að við skipuleggjum ferð á gámasvæðið strax heimavið og ákveðum í hvaða flokk hlutir eiga að fara. Þetta er vani – eitthvað sem við þurfum að læra og laga okkur að, flóknara er það ekki. Allar leiðbeiningar er að finna á heimasíðunni og ekki boðlegt að eyðileggja þá vinnu sem aðrir leggja á sig við flokkun og vilja tryggja að verðmæti varðveitist þó í gáma séu komin.
Tvennt liggur undir hér þegar ég segi að þetta sé ekki boðlegt, annars vegar möguleikar á endurnýtingu hráefna sem við erum hætt að nota og hins vegar kostnaður sem fellur á sveitarfélagið vegna förgunar sorps og urðunar. Eitt augljósasta dæmið um þetta er þegar farið er með pappa og pappakassa á gámasvæðið. Við höfum gámana sem taka við pappanum VILJANDI með minni hurðum en aðra gáma og það er gert til þess að menn ÞURFI/VERÐI að brjóta umbúðirnar saman. Og af hverju gerum við þetta? Jú – við greiðum eftir UMMÁLI og EKKI EFTIR ÞYNGD þegar þessir gámar eru sóttir. Og svo tekur næsti kafli við sem kostar sveitarfélagið peninga.
Þegar bylgjupappa er blandað saman við almennt heimilissorp í gáma eða heimilissorpi saman við bylgjupappa þá verður að urða úrganginn sem kostar sveitarfélagið allt að 30 krónur á kílóið. Sé pappanum safnað í sér gám þá greiðir sveitarfélagið 0 krónur á kílóið.
Sömu sögu er að seigja af fleiri úrgangsflokkum. Sé t.d raftækjum hennt í gám fyrir almennan heimilisúrgang verður að flokka allt innihaldið með tilheyrandi kostnaði þar sem bannað er skv. lögum að urða raftæki. Kostnaður við flokkun eru 40 krónur á kíló.
Það eru orð að sönnu að bæði umhverfislegur og fjárhaglegur ávinningur fæst með því að flokka í þartilgerð ílát þann úrgang sem við getum ekki nýtt.
Hugsum þegar við kaupum og hugsum áður en við hendum
Þetta þýðir að ef við komum 20 uppsettum kössum fyrir í einum gám, kæmum við sennilega 100 pressuðum kössum fyrir í sama rými EN greiðum sama verð fyrir. Þetta þýðir að það verður margfalt dýrara fyrir sveitarfélagið að losa sig við ópressaða kassa – peningur sem við greiðum sjálf í gegnum útsvarið okkar! Ekki verður kostnaðurinn minni þegar viðkomandi hendir pappír, möppum og kössum í almenna gáminn í stað þess að skilja að og skila á rétta staði.
Sem betur fer standa flestir sig frábærlega við flokkun og við erum oft að fá góðar ábendingar um það sem betur má fara eða hvernig við getum bætt aðgengi að upplýsingum.
Við fáum reglulega yfirlit frá TERRA þar sem við sjáum hversu mikið af sorpinu er flokkað, hvernig sú flokkun er og hvort verið sé að nýta gámana rétt. Þið verðið að muna að þegar verið er að spilla gámnum – setja hluti á rangan stað t.d. rafmagnshluti í gám sem merktur er húsgöng eða gler þar sem pappi á að vera er búið að spilla gámnum og möguleikar á endurnýtingu orðnir minni eða kostnaðurinn við frekari orðinn of mikill. Þá er gripið til urðunar og sveitarfélagið greiðir aukalega fyrir.
Við getum öll gert betur og eins og sjá má á meðfylgjandi myndum af gámasvæðinu þarf oft ekki annað en að lesa á upplýsingaskiltið og setja úrganginn á réttan stað – gámurinn er til og bíður, það þarf BARA AÐ SETJA Í RÉTTAN GÁM!
Með kveðju
Björg Erlingsdóttir
Sveitarstjóri Svalbarðsstrandarhrepps
Svalbarðsstrandarhreppur - Ráðhúsinu, 606 Akureyri
Kennitala: 640269-2279 - Bankareikn.: 0162-26-075801