Í tilefni þess að snjóa er farið að leysa ætlar umhverfis- og atvinnumálanefnd að bjóða upp á ýmsan fróðleik og fræðslu tengda umhverfi og náttúru í maí. Alls verða þetta 4 viðburðir dreift yfir mánuðinn.
Smíði ræktunarkassa, endurnýting 8. maí
Í samvinnu við Stefán og Ingu á Þórisstöðum, bjóðum við upp á vinnustofu í smíði ræktunarkassa úr endurunnum efniviði s.s. vörubrettum og öðru. Sýnishorn á staðnum en þátttakendum er frjálst að gera sína eigin útfærslu, efniviður, tæki og tól á staðnum en um að gera fyrir þátttakendur að taka með sér skrúfvélar, hamar og nagla ef vill. Einnig er í boði að kaupa fyrir lítið fé aðeins veglegri efnivið, jarðvegsdúk, mold og moltu og mun ágóði þess allur renna til Kvenfélags Svalbarðsstrandar.
Til að fá hugmynd um fjölda eru áhugasamir beðnir að skrái sig á netfangið umhverfisnefnd@svalbardsstrond.is
Hvenær og hvar: Miðvikudaginn 8. maí frá kl 17 – 20 í Leifshúsum. Ekið upp heimreið og norður fyrir húsin á hlaðinu að nýrri skemmu sem blasir þar við.
Matjurtargarðar Akureyrar, dagsetning auglýst síðar.
Matjurtagarðarnir á Akureyri hafa notið gríðarlegra vinsælda meðal bæjarbúa og komast færri að en vilja. Heiðrún Sigurðardóttir hefur umsjón með görðunum og ætlar hún að taka á móti okkur þar, sýna okkur garðana og segja frá fyrirkomulaginu sem þar er í stuttri heimsókn okkar. Áhugasamir verða beðnir að skrá þátttöku. ATH Þar sem garðarnir eru enn undir snjó verður dagsetning auglýst síðar, þegar Heiðrúnu líst á að geta sýnt okkur garðana almennilega!
Hvar og hvenær: Hittumst við Gömlu Gróðrarstöðina við Krókeyri (við Mótorhjólasafnið hans Tomma/Iðnaðarsafnið) Til að fá hugmynd um fjölda þáttakenda þarf að skrá þáttöku á netfangið umhverfisnefnd@svalbardsstrond.is
Ruslatínsla meðfram Grenivíkurvegi Laugardaginn 18. maí.
Laugardaginn 18. maí kl 10 hefjumst við handa við að týna rusl með fram Grenivíkurvegi líkt og við höfum gert síðustu ár. Við komum saman í Valsárskóla kl 10:00. Þar verða í boði gul vesti, plokktangir og ruslapokar. Þátttakendum er skipt á svæði meðfram veginum og skutlað áleiðis á sinn stað. Svo er ruslið hirt upp og þátttakendur fluttir á ný svæði ef nægur tími er til stefnu. Íbúar eru hvattir til að mæta í gulum vestum eða öðrum áberandi fatnaði, vera með hanska, í góðum skóbúnaði og með plokktangir ef þau eiga í fórum sínum.
Við verklok grillum við pylsur, spjöllum og njótum veðurblíðunnar sem er alltaf á þessum degi.
Hvar og hvenær: Laugardaginn 18. maí mæting í Valsárskóla kl 10. Pokar á staðnum, hafa með plokktangir ef vill, vinnuhanska, vera í góðum skóm og klædd í takt við veðrið.
Fuglafræðsla um líffríkið við Tungutjörn - Hvað gerir hettumáfurinn fyrir vistkerfi tjarnarinnar? Valsárskóli 21. maí kl. 17:00
Sverrir Thorstensen kemur og flytur fræðsluerindi um fuglalífið í Tungutjörn. Sverrir hefur rannsakað fuglalíf við Eyjafjörð í hartnær 50 ár og mun miðla þeim fróðleik til gesta á meðan hann sýnir myndir sem hann hefur tekið í kringum Tungutjörn í gegnum árin.
Hvar og hvenær: Þriðjudaginn 21. maí í Valsárskóla kl. 17:00. Boðið verður upp á kaffi og súkkulaði meðan á kynningunni stendur.
Svalbarðsstrandarhreppur - Ráðhúsinu, 606 Akureyri
Kennitala: 640269-2279 - Bankareikn.: 0162-26-075801