Ungir menn í heimsókn á skrifstofu sveitarstjóra

Störf sveitarstjóra eru fjölbreytt en eitt það skemmtilegasta er að taka á móti íbúum og geta orðið þeim til aðstoðar. Í gær fékk ég góða heimsókn frá þremur ungum mönnum sem voru ekki sáttir við það að Ærslabelgurinn væri loftlaus eftir að skóla lýkur. Þegar þeir fara heim af leikskólanum er því ekki hægt að staldra við og leika sér á þessum glæsilega Ærslabelg. Málið var vel fram sett, þeir höfðu góð rök fyrir sínu máli og okkur ljúft að verða við ósk þeirra um að lengja tímann sem loft er í belgnum. Við settumst því niður og skrifuðum bréf til Ragga húsvarðar sem fylgir hér að neðan. Raggi svaraði um hæl og ætlar að laga þetta.

Eins og venja er eftir góðan fund og lyktir mála settumst við niður og fengum okkur kaffisopa og tókum upp léttara spjall yfir góðum vini íslendinga Prince Polo enda voru fundargestir vissir um að sveitarstjórinn lumaði á súkkulaði.

Með kveðju
Björg Erlingsdóttir sveitarstjóri

 

„Kæri Raggi hjá mér eru nokkrir ungir menn sem vilja svo gjarnan hafa hoppubelginn upp blásinn lengur en nú er. Viltu vera svo vænn að laga þetta á morgun.“

Með kveðju,
Emil
Bjarni
Árni og Björg