Ungmennaþing SSNE í Reykjadal

Ungmennaráð Svalbarðsstrandarhrepps.
Ungmennaráð Svalbarðsstrandarhrepps.

Dagana 14. og 15. október 2024 var haldið ungmennaþing SSNE í Reykjadal, þar sem 32 ungmenni á aldrinum 13–18 ára komu saman. Þessi ungmenni eiga það sameiginlegt að vera fulltrúar í ungmennaráðum sveitarfélaga á Norðurlandi eystra. Markmið ungmennaþingsins er að valdefla ungt fólk, styrkja tengsl þeirra við hvert annað og efla samvinnu á milli sveitarfélaga, en þingin hafa verið haldin árlega síðan 2021.

Fulltrúar Svalbarðsstrandarhrepps voru þær Sólrún Assa Arnardóttir, Sædís Heba Guðmundsdóttir, Eyrún Dröfn Gísladóttir og Lilja Jakobsdóttir, ásamt fararstjóranum Önnu Louise Júlíusdóttur.

Ungmennin tóku þátt í fjölbreyttum vinnustofum, Lýðræðislestin kom frá Alþingi og hélt vinnustofu um mikilvægi lýðræðis og hvernig frumvarp fer í gegnum Alþingi. Bergið headspace fjallaði um andlega heilsu ungmenna og fulltrúar frá Samfés fjölluðu um samstarf félagsmiðstöða og ungmennahúsa á landsvísu. Sigríður frá Mögnum hélt sjálfseflandi vinnustofu og fræðslu um teymisvinnu og þau fengu einnig innsýn í hvernig hægt er að nýta lýðræðislega þátttöku til að hafa áhrif á eigin samfélag. Að kvöldi var haldin leiklistarkvöldvaka þar sem þátttakendur komu saman við varðeld, grilluðu og skemmtu sér saman.

Fulltrúar okkar stóðu sig vel og voru okkur öllum til sóma. Eitt af verkefnunum sem unnið var er frétt um Svalbarðsströnd í framtíðinni eða árið 2044, það er skemmtileg sýn á sveitarfélagið með búð, sundlaug og rækt svo eitthvað sé nefnt.

Við erum stolt af okkar glæsilegu ungmennum og vitum að framtíðin er björt.